MP banki hefur selt dótturfélag sitt í Litháen, MP Pension Fund Baltic, til fjárfestingafélagsins Invalda LT AB. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Söluverð er 3,3 milljónir evra, sem jafngildir um 508 milljónum króna. Fram kemur í tilkynningunni að salan muni hafa jákvæð áhrif á afkomu MP banka á þriðja ársfjórðungi 2014.

MP Pension Fund Baltic er sérhæft lífeyrissjóðafyrirtæki í Litháen sem býður afurðir á sviði lífeyrissparnaðar þar í landi. MP banki kveðst ekki stefna á frekari vöxt í Litháen, auk þess sem takmörkuð samlegð sé í rekstri félaganna. Því var tekin stefnumarkandi ákvörðun um að selja félagið á þessum tímapunkti.

Seðlabanki Litháen hefur samþykkt söluna og mun Invalda LT AB taka við eignarhaldi félagsins í dag. Prime Investment var ráðgjafi MP banka við söluna.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, segist stoltur af uppbyggingu MP Pension Fund Baltic og þeim árangri sem náðst hefur frá stofnun félagsins árið 2007.„Í dag eru viðskiptavinir um 62.000 talsins og eignir í stýringu um 90 milljónir evra. Grundvöllur fyrir frekari vexti félagsins er því góður. Það hefur verið ánægjulegt að starfa með stjórnendum og starfsmönnum MP Pension Fund Baltic og við óskum nýjum eigendum alls hins besta við frekari uppbyggingu félagsins.“