Spurður um framhald sölunnar á Íslandsbanka segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra það skýra afstöðu sína að halda eigi söluferlinu áfram.

„Það er engum til góðs að Ísland sé eitt á báti í hópi vestrænna lýðræðisríkja þegar kemur að ríkiseignarhaldi á fjármálafyrirtækjum. Söluandvirði bankans hingað til stendur undir allri fjárfestingu ríkisins á næsta ári og meira til – í nýjum Landspítala, samgöngumannvirkjum, hjúkrunarheimilum, Stafrænu Íslandi og áfram mætti lengi telja.

Við höfum skýr tækifæri til að halda áfram að breyta áhættufjármunum ríkisins í innviði fyrir samfélagið. Ég mun beita mér fyrir því að salan haldi áfram, en næsta skref í þeim efnum er að koma á fót nýrri umgjörð um eignarhaldið og söluna eins og við formenn ríkisstjórnarflokkanna höfum boðað. Vinna við frumvarp þar um gengur ágætlega.”

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tekur í svipaðan streng fyrir hönd Framsóknar og segir flokkinn telja að af því gefnu að ekkert óvænt komi fram í athugun Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á sölunni í vor verði hægt að halda áfram að draga úr eignarhaldi ríkisins á bankanum á kjörtímabilinu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út nú í morgun.