Sáraroð, helsta vara íslenska lækningavörufyrirtækisins Kerecis, er nú niðurgreitt af tryggingum 150 milljóna Bandaríkjamanna eftir að nokkur stór bandarísk tryggingafyrirtæki hófu nýlega að greiða fyrir notkun sáraroðsins.

Fyrir höfðu 87 milljónir Bandaríkjamanna aðgang að sáraroðinu

„Greiðsluumhverfið í Bandaríkjunum er afskaplega flókið með fleiri en þúsund tryggingafélög á markaði sem öll eru með mismunandi reglur um greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis.

„Vaxandi notkun og lengri saga á markaðinum í Bandaríkjunum gerir okkur kleift að safna gögnum sem sýna fram á bætta sárameðhöndlun með tækninni okkar og þar með lægri heildarmeðhöndlunarkostnað fyrir tryggingarfélögin,“ segir hann um ástæður þess að vörur Kerecis nái nú til fleiri tryggingafélaga.

Kerecis stefnir á að á næsta ári nái sáraroðið til 200 milljóna Bandaríkjamanna.

Fréttin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 27. apríl.