Aðeins tveir stórnotendur keyptu upprunaábyrgðir á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2022 en Borealis Data Center (Etix) og Verne Global keyptu slíkar ábyrgðir fyrir alla eða hluta af sinni notkun. Þetta kemur fram í svari umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn þingmannsins Andrésar Inga Jónssonar.

Stórnotendur raforku nota um 80% allrar raforku í landinu en þar undir falla meðal annars gagnaver og álver. Í raforkulögum er stórnotandi skilgreindur sem notandi sem notar innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWst á ári.

Enginn íslenskur álframleiðandi kaupir þó upprunaábyrgðir samkvæmt svari ráðherrans en álverin nota meira en helming allrar raforku á Íslandi. Kaup á upprunaábyrgðum, miðað við meðalmarkaðsverð, hefði kostað áliðnaðinn um 6,1 milljarð króna árið 2022 ef slíkar ábyrgðir hefðu verið keyptar fyrir alla notkun iðnaðarins.

Ríkið kaupir ábyrgðir

Viðskiptablaðið greindi fyrr í mánuðinum frá nýjum rammasamningi um raforku fyrir stofnanir ríkisins en þar er kveðið á um kaup á upprunábyrgðum. Samkvæmt Ríkiskaupum gæti kostnaður við innkaup samkvæmt samningnum numið einum milljarði króna árið 2024, þar af færu um 10% eða hundrað milljónir í kaup á upprunaábyrgðum.

Þó að ríkisstofnanir teljist ekki til stórnotenda er ljóst að þær þurfi mikla raforku. Orkunotkun A-hluta stofnana ríkisins árið 2023 var um 100 megavattstundir. Svo virðist sem að ríkið sé meðal örfárra stórra notenda sem kaupa upprunaábyrgðir. Sá munur er á að fyrirtæki geta nýtt slíkar ábyrgðir til að markaðssetja sig á erlendri grundu.

Evrópskt viðskiptakerfi upprunaábyrgða var innleitt hér á landi með lögum árið 2008 og hóf Landsvirkjun sölu þeirra árið 2011. Til þess að viðskiptavinir geti markaðssett sig sem notendur endurnýjanlegrar orku þarf að kaupa upprunaábyrgð en ein upprunaábyrgð jafngildir einni MWst af raforku.

Undir lok árs 2022 tilkynnti Landsvirkjun sölufyrirtækjum á heildsölumarkaði að frá og með árinu 2023 myndu slíkar ábyrgðir ekki fylgja endurgjaldslaust með orkunni sem fyrirtækin kaupa.