Forsætisráðherra segir að heimild Kaupþings og Glitnis til nauðasamninga verði að vera hluti af áætlun til afnáms gjaldeyrishafta. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg þar sem fjallað er um stöðu kröfuhafa gömlu bankanna og væntanlega nauðasamninga þeirra í tengslum við afnám gjaldeyrishafta.

Forsvarsmenn Glitnis og Kaupþings tjá sig ekki um hvort til sé „plan B“ neiti Seðlabanki staðfestingu nauðasamnings þeirra. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis segir í samtali við Bloomberg að um helmingur eigna slitastjórnarinnar sé nú í reiðufé og að slitastjórnin bíði nú átekta eftir samþykki Seðlabankans á fyrirhuguðum nauðasamningum.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir það mikilvægt að allar greiðslur til kröfuhafa séu framkvæmdar eftir vandlega skoðun og að þær setji ekki lífskjör á Íslandi í hættu. „Það er ljóst að það eru sterk tengsl á milli afnáms gjaldeyrishafta og slitameðferðar gömlu bankanna.“