Nauðsynlegt er að áætlun um afnám gjaldeyrishafta sé tímastillt og nánari upplýsinga sé aflað um stöðu mála. Þetta sögðu Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, á hádegisverðarfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í dag. Yfirskrift fundarins var „Gjaldeyrishöft - Er hægt að losa þau?“. Auk Orra og Páls héldu Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri Gamma, erindi.

Þegar gjaldeyrishöftin voru sett á var bent á að þau vari oft lengur en stendur til í upphafi. Það hefur komið á daginn, sagði Orri. Hann sagði kostnað vegna haftanna hlaupa á tugum milljarða á ári, og fari hækkandi með hverju árinu. Hinsvegar sé auðvelt að fela þennan kostnað þar sem hann er að stórum hluta fórnarkostnaður.

Orri og Páll töldu báðir að áætlun um afnám hafta eins og hún var lögð fram í mars síðastliðnum sé ekki nógu nákvæm. Afla þurfi nákvæmari gagna, þar á meðal um stöðu eigenda aflandskróna. Gengi aflandskrónu og seðlabankagengi krónunnar sé ófullkominn mælikvarði til að meta „rétt“ verð krónunnar. Páll sagði aflandsgengið fyrst og fremst væntingavísitölu um afnám hafta - það verður jafngilt álandsgengi ef búist er við að verið sé að aflétta höftum.

Páll var afar harðorður um áætlun Seðlabankans og stjórnvalda, sem lögð var fram í mars síðastliðnum. Hann vill endurskoða áætlunina og sett verði saman ný á næstu 4 til 6 vikum. Hún verði stórkostlega einfölduð, með tímasettum markmiðum og samhliða verði farið í öflugt kynningarstarf um stöðu efnahagsmála.

Hann sagði að sjaldan hafi skýrsla valdið honum eins miklum vonbrigðum, og hún sé í raun „óseðlabankaleg“. Oftast séu skýrslur bankans undirbyggðar á ítarlegri og vandaðri greiningi, og þá skipti ekki máli hvort hann sé sammála innihaldi þeirra. Skýrslan um afnámið sé hinsvegar afar slæm og sagðist Páll efast um að hún geti komið Íslendingum á leiðarenda hennar. Hún sé seinvirk og að nýleg útboð Seðlabankans sýni að áætlunin lendir í sjálfheldu.

Páll gagnrýndi að skýrsluna vantar skýr viðmið, til dæmis um hvenær fjármálakerfið sé tilbúið, líkt og kveðið er á um í skýrslunni, til að hægt sé að taka næstu skref. Páll benti ennfremur á misræmi í áætluninni. Á einum stað segi að aflandskrónueigendur vilji margir fara með fjármuni sína úr landi, á öðrum stað segi að lítið sé vitað um eigendurna. Því byggi skýrslan á veikum grunni.

„Við vitum eitt um þá. Flestum liggur ekkert á að komast út, og það sést á útboðum Seðlabankans. Um 85% aflandskróna hafa ekki sýnt áhuga,“ sagði Páll og vísaði þá í útboð Seðlabankans þar sem hann býðst til að kaupa aflandskrónur fyrir evrur. Samkvæmt því er „aflandskrónuvandinn“, það eru óþolinmóðir krónueigendur, um 60-70 milljarðar króna. „Ef það er vandinn þá er það snöggleyst,“ sagði Páll.