NeckCare og Háskóli Íslands hafa undirritað samstarfssamning um eflingu rannsókna í hreyfivísindum við læknadeild Háskóla Íslands. Undirskrift samningsins fór fram fimmtudaginn 12. desember síðastliðinn.  Framkvæmdastjóri NeckCare Holding ehf., Þorsteinn Geirsson og rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson og Kristín Briem prófessor á Heilbrigðisvísindasviði skrifuðu undir samstarfssamninginn. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Það er okkur sönn ánægja að vinna með NeckCare sem hefur þróað vélbúnað og hugbúnað sem hefur mikla sérstöðu á heimsvísu," segir Kristín Briem. „Í þessu þróunarstarfi hefur NeckCare unnið þétt með innlendum sem erlendum háskóla- og vísindasamfélögum. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá afraksturinn nýtast nemendum við Háskóla Íslands til enn frekari þekkingaröflunar og rannsókna á sviði hreyfivísinda og sjúkraþjálfunar," er haft eftir Kristínu Briem í tilkynningunni.

„Tækifærin í þessu samstarfi felast m.a. í að skapa sérfræðiþekkingu í hreyfivísindum hér á landi og um leið samfélag okkar öðlast mikil sóknarfæri inn á innlenda og erlenda heilbrigðistæknimarkaði," segir Sigurður Kristinn Egilsson, stjórnarformaður NeckCare í tilkynningunni.

„Okkur er umhugað um að miðla þekkingu og við erum sannfærð um að sá hátæknibúnaður sem NeckCare færir nú Háskóla Íslands að gjöf muni gagnast Rannsóknarstofu í hreyfivísindum ákaflega vel. Það er okkur mikill heiður að fá að styðja við svo metnaðarfullt verkefni við Læknadeild Háskóla Íslands sem Rannsóknarstofa í hreyfivísindum er og við vonumst sannarlega til að framlag okkar verði bæði kennurum og nemendum hvati til að efla rannsóknastarf á sviði heilbrigðistækni," bætir hann við.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um síðasta sumar þá er NeckCare íslenskt fyrirtæki sem selur veflægar greiningar- og endurhæfingarlausnir á hreyfiskaða á alþjóðlegum mörkuðum. Hátæknivörur NeckCare eru einkaleyfisverndaðar í þremur heimsálfum. Fyrirtækið þróar hátæknibúnað til hlutlægs mats á stoðkerfisvanda s.s. í hálsi sem nýtist jafnt til greiningar og endurhæfingar. Einkaleyfisvernduð tækni félagsins gerir mögulegt að veita fagaðilum á heilbrigðissviði aðstoð við hlutlægt mat á hálsskaða sem og viðeigandi endurhæfingu þeirra sjúklinga sem um ræðir s.s. þeirra sem hlotið hafa endurtekna og langvarandi hálsáverka.