Góðgerðarfélag Menntaskólans í Reykjavík hefur fært heilabilunardeild L4 á Landakoti að gjöf fé til að bæta aðbúnað sjúklinga þar, rúmar 600 þúsund krónur. En þrír útskriftarnemar skólans afhentu forstjóra Landspítala gjöfina 10.júní síðastliðinn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landspítalanum.

Á hverju ári safna nemendur fé til góðgerðarmála í nafni Góðgerðarfélgas MR. Mörg góð málefni hafa þannig notið stuðnings á undanförnum árum. Að þessu sinni varð Landspítalinn fyrir valinu, en unga fólkið ákvað að styrkja gamla fólkið og úr varð að sjúklingar í heilabilunardeild L4 fengu að njóta gjafarinnar. Þar er orðin brýn þörf á að endurnýja ýmsan búnað, svo sem dýnur og rúm, og framlag nemendanna í MR fer í það.

Fjársöfnun í góðgerðarvikunni í MR gengur út á áheit og nemendurnir hafa ýmis ráð með að safna fé. Meðal annars var haldið bingó og góðgerðarskemmtun. Keppni var milli bekkja um hver safnaði mestu og söfnunarbaukar settir í allar stofur en söfnunin í ár gekk einkar vel.

Alexandra Ýr Erven, Jóhanna Preethi Gunnarsdóttir og Rósa Ásgeirsdóttir ásamt Heru Sólveigu Ívarsdóttur og Sólveigu Ástu Einarsdóttur sá um góðgerðarfélagið í ár.