Netagerð Friðriks Vilhjálmssonar hf. og Netagerð Vestfjarða hf. sameinaðar undir nafninu Fjarðanet hf. Gúmmíbátaþjónusta Austurlands ehf. og Gúmmíbátaþjónustan ehf. á Ísafirði sameinaðar inn í sama fyrirtæki. Fjarðanet hf. er með starfsemi á sjö stöðum á landinu; rekur alhliða veiðarfæraþjónustu á sex stöðum, gúmmíbátaþjónustu á tveimur stöðum ásamt þvottastöð fyrir fiskeldispoka á einum stað. Áætluð heildarvelta er um 400 milljónir á þessu ári og starfsmannafjöldi um 40. Jón Einar Marteinsson verður framkvæmdastjóri Fjarðanets hf.

Ákveðið hefur verið að sameina rekstur Netagerðar Friðriks Vilhjálmssonar hf. og Netagerðar Vestfjarða hf. undir nafninu Fjarðanet hf. Samtímis hefur verið ákveðið að sameina inn í Fjarðanet hf. Gúmmíbátaþjónustu Austurlands ehf og Gúmmíbátaþjónustuna ehf á ísafirði. Netagerð Vestfjarða er dótturfélag Netagerðar Friðriks Vilhjálmssonar, sem á um 81% hlutafjár í félaginu. Gúmmíbátaþjónusta Austurlands er að fullu í eigu Netagerðar Friðriks Vilhjálmssonar og Gúmmíbátaþjónustan er að fullu í eigu Netagerðar Vestfjarða. Sameiningin mun gilda frá og með 1. janúar 2005 segir í tilkynningu frá félaginu.

Fjarðanet hf. er með starfsemi á sjö stöðum á landinu; rekur alhliða veiðarfæraþjónustu á sex stöðum: á Fáskrúðsfirði, í Neskaupstað, á Seyðisfirði, á Akureyri, á Siglufirði og á Ísafirði. Einnig rekur Fjarðanet hf. Gúmmíbátaþjónustu á tveimur af starfsstöðvunum, í Neskaupstað og á Ísafirði, ásamt þvottastöð fyrir fiskeldispoka á Reyðarfirði. Fjarðanet hf. samanstendur af mörgun netagerðum sem allar eru rótgrónar og þekktar fyrir starfsemi sína og þjónustu við sjávarútveginn í áratugi. Stærstu hluthafar í Fjarðaneti hf. eru: Hampiðjan hf., Eignarhaldsfélag Austurlands hf., og Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri félagsins.

Fjarðanet hf. mun eiga náið samstarf við Hampiðjuna hér á landi og dótturfélög hennar, ekki síst á Írlandi, í Litháen og í Danmörku. Í því samstarfi mun félagið koma að vöruþróun grunneininga veiðarfæra og fiskeldiskvía og mun draga að sér þekkingu í því samstarfi þar sem hennar er þörf.

Fjarðanet hf. veitir alhliða veiðarfæraþjónustu á öllum starfsstöðvunum og framleiðir og þjónustar allar gerðir veiðarfæra. Fjarðanet hf. er leiðandi fyrirtæki í þjónustu við fiskeldi, með framleiðslu á netpokum og festingum til fiskeldis, rekstri á þvottastöð fyrir fiskeldispoka og sölu á kvíum og öðrum búnaði til fiskeldisstöðva. Áætluð heildarvelta hinna sameinuðu fyrirtækja er um 400 milljónir króna á þessu ári og heildarstarfsmannafjöldi er um 40.