Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2023 nam 8,8% samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga og hefur aldrei verið stærri. Þetta kemur fram í greiningu frá Hagstofu Íslands.

Til samanburðar nam hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu 7,5% árið 2022 og að jafnaði 8,2% á tímabilinu 2016 til 2019, fyrir kórónuveirufaraldurinn.

Þá er áætlað að 31 milljón vinnustunda eða 9,7% heildarvinnustunda hér á landi á árinu 2023 hafi tengst beint framleiðslu á vöru eða þjónustu til endanlegra nota fyrir ferðamenn. Til samanburðar var þetta hlutfall 9,4% árið 2022 og að jafnaði 10,6% á árunum 2016-2019.

Starfsmönnum í ferðaþjónustu fjölgaði einnig um 8% frá fyrra ári og voru þeir um 23 þúsund hér á landi. Talan var þá svipuð árið 2018 og 2019 þegar mest lét.

Heildarneysla ferðamanna, bæði innlendra og erlendra, hérlendis nam rúmlega 845 milljörðum króna í fyrra og hefur aldrei verið meiri. Þá námu útgjöld erlendra ferðamanna tæplega 503 milljörðum króna árið 2023 miðað við 399 milljarða árið 2022.