Verulega hefur dregið úr tiltrú neytenda á efnahagslífið á síðustu mánuðum. Væntingavísitala Gallup stendur nú í 100,8 stigum sem táknar að aðeins örlítið fleiri neytendur eru nú jákvæðir gagnvart aðstæðum í efnahagslífinu en neikvæðir, segir greiningardeild Glitnis.

?Vísitalan hækkaði um 4,3 stig á milli maí og júní og gefur það til kynna aukna bjartsýni á meðal neytenda á síðustu vikum. Alls hefur væntingavísitalan þó lækkað um 27 stig frá upphafi árs," segir greiningardeildin.
Hún segir að um 25,3% neytenda telja að efnahagsástandið sé gott en 24,8% telja hins vegar að ástandið sé slæmt en á sama tíma í fyrra töldu um 50% væri gott og um 13% töldu ástandið slæmt.

?Neytendur eru þannig á báðum áttum um efnahagsástandið í landinu en það kemur ekki á óvart í ljósi aukinnar verðbólgu, lækkun krónunnar, lækkun hlutabréfaverðs, hækkandi vaxta, mikils viðskiptahalla og neikvæðrar umræðu um stöðu hins íslenska efnahagslífs. Þó telja 44,9% neytenda atvinnumöguleika sína mikla en aðeins 14,7% telja möguleika sína litla. Það rímar vel við lítið sem ekkert atvinnuleysi um þessar mundir," segir greiningardeildin.

Líkur eru á að það dragi úr hagvexti á komandi ári og greiningardeildinni virðist sem svo að neytendur séu meðvitaðir um það.

?Nú telja 38% neytenda að efnahagsástandið verði verra eftir sex mánuði en aðeins 15% telja að það verði betra. Á síðustu vikum hefur þó fækkað nokkuð í hópi þeirra sem telja að ástandið verði verra þótt mun fleiri séu þeirrar skoðunar núna en í fyrra.

Aukið jafnvægi í umfjöllun um efnahagslífið hér á landi á sennilega stóran þátt í þessari fækkun undanfarnar vikur. Um 16% neytenda telja að atvinnumöguleikar sínir verði minni eftir sex mánuði en 12% þeirra telja að möguleikar sínir verði meiri," segir greiningardeildin.

Þá telja um 20% neytenda að heildartekjur sínar verði meiri eftir sex mánuði en 18% telja að tekjur sínar verði minni.