Samskiptaforritið WhatsApp hefur sagt að notendur muni á næstu vikum geta breytt skilaboðum sem þegar hafa verið send. Notendur munu hafa 15 mínútur til að breyta skilaboðunum eftir að búið er að senda þau.

Þessi eiginleiki er nú þegar í boði meðal samkeppnisforrita WhatsApp, Telegram og Discord. Breyttu skilaboðin verða hins vegar skráð sem „breytt“ þannig að viðtakendur geti séð að efni skilaboðsins hafi í raun verið breytt.

„Við erum spennt að veita þessa nýju þjónustu. Hvort sem þú þarft að laga stafsetningavillu eða bæta við upplýsingum, þá velur þú bara skilaboðin, heldur takkanum inni og ýtir á „breyta“ í allt að 15 mínútur eftir að það hefur verið sent,“ segir í bloggfærslu WhatsApp sem birtist í gær.

Notendur WhatsApp eru í kringum 2 milljarðar og er Indland stærsti markaður forritsins með yfir 487 milljónir notenda. WhatsApp er í eigu Meta, sem rekur einnig Facebook og Instagram.

Facebook var fyrsti samfélagsmiðillinn sem bauð upp á þessa þjónustu fyrir tæpum áratug síðan. Á þeim tíma kom í ljós að um helmingur notenda skoðuðu Facebook í gegnum farsíma og voru þar með líklegri til að gera innsláttarvillur.