Samkvæmt nýbirtum ársreikningi nam hagnaður Fjarskiptafyrirtækisins Nova 1.173 milljónum króna á árinu 2015. Um er að ræða 44 prósent hagnaðaraukningu á milli ára en hagnaðurinn árið 2014 var 814 milljónir króna. Stjórn Nova leggur til útgreiðslu arðs til hluthafa árið 2016 að fjárhæð 1.000 milljónir króna.

Tekjur félagsins námu 7,6 milljörðum króna og jukust um 1,2 milljarða á milli ára en árið 2014 voru tekjurnar 6,4 milljarðar króna.

Rekstrargjöld árið 2015 námu 5,6 milljörðum en 4,9 milljörðum árið 2014. Rekstrarhagnaður var 1,45 milljarðar í fyrra en 970 milljónir árið 2014.

Eignir Nova nema 5,1 milljarði króna, skuldir 1,4 milljarði króna og eigið fé 3,7 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall 71,9 prósent.

Í yfirlýsingu frá stjórn fyrirtækisins kemur fram að viðskiptavinum Nova fjölgaði um 6,5 prósent á árinu 2015 og var heildarfjöldi viðskiptavina 145.734 í lok ársins. Samkvæmt tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar var Nova stærsta farsímafyrirtækið á Íslandi í lok árs 2015 með 34 prósent markaðshlutdeild í fjölda viðskiptavina, talið í fjölda virkra símkorta.