Aurora Acquisition, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur samið um kaup á hlut í húsnæðislánafyrirtækinu Better Mortgage ásamt fjárfestingarisanum SoftBank, sem kaupa mun stærstan hlut.

Sérhæfða yfirtökufélagið Aurora Acquisition , sem var stofnað í mars síðastliðnum, mun sameinast Better Mortgage, sem er verðmetið á 6,9 milljarða Bandaríkjadala – um 850 milljarða íslenskra króna. SoftBank fjárfestir síðan allt að 1,3 milljörðum dala óbeint (svokölluð PIPE fjárfesting), og Aurora leggur til 200 milljónir dala til viðbótar, eða um 25 milljarða íslenskra króna. SoftBank hafði áður nýlega fjárfest hálfum milljarð dala í Better.

Björgólfur er ekki eini Íslendingurinn sem kemur að viðskiptunum. Sigurgeir Jónsson er yfirmaður fjármálamarkaða hjá og kom að stofnun Better, en hann og Björgólfur – sem er stjórnarformaður Aurora og stærsti hluthafi þess með um 16% hlut í gegnum Novator Capital – eru frændur. Fram kemur í frétt BusinessWire um málið að yfirstjórn Better muni starfa áfram.

Better hefur stækkað ört frá stofnun 2016 og veitti lán að andvirði ríflega 24 milljarða dala í fyrra, sem er tæp sexföldun milli ára, en þar starfa hátt í 5 þúsund manns. Better sótti sér síðast fjármögnun í nóvember í fyrra og var þá metið á um 4 milljarða dala. Matið hefur því hátt í tvöfaldast síðan þá.