Dómari í Flórída hefur kveðið á um að lög sem banni svokallaðar skopparabuxur séu andstæð stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Ákvörðun dómarans kemur í kjölfar þess að táningspiltur var látinn gista fangageymslur fyrir það eitt að nærbuxur hans sáust of mikið er hann klæddist slíkum buxum.

Bandaríski fréttamiðillinn Fox news, segir frá því að hinn sautján ára gamli Julius Hart hafi í síðustu viku verið ákærður fyrir það að 10 til 12 cm af nærbuxum hans hafi staðið upp úr buxnastrengnum. Nærbuxurnar munu hafa verið svartar og bláar af boxer gerð, en samkvæmt öruggum heimildum Viðskiptablaðsins eru slíkar nærbuxur iðulega bornar undir skopparabuxum.

Skopparabuxur hafa verið bendlaðar við rapp og hip hop menninguna og átt talsverðu fylgi að fagna vestan hafs. Sérstaklega meðal bandarískra táningspilta af afrískum uppruna.

Sú staðreynd að nærbuxurnar vilja gjarnan standa upp úr buxnastrengnum, hefur farið fyrir brjóstið á siðprúðum Bandaríkjamönnum. Ekki hjálpar heldur að tískan er talin eiga rætur að rekja til fangelsismenningar.

Lög gegn fyrrnefndum klæaðburði voru samþykkt í kosningum í Rivera Beach í Flórídafylki í mars síðastliðnum. Viðurlög við fyrsta broti eru 150 bandaríkjadala sekt eða samfélagsvinna. Ítrekaður brotavilji getur leitt til fangelsisvistar.