Nýbygging Háskólans í Reykjavík er nú að rísa við rætur Öskjuhlíðar og var haldið reisugildi byggingarinnar 30. apríl. Þá var byggingin kynnt formlega fyrir starfsfólki og aðstandendum Háskólans. Dr. Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, er að vonum ánægð með að tekist hafi að halda verkefninu áfram þrátt fyrir erfiðleika sem skapast hafa af efnahagskreppunni í þjóðfélaginu.

„Þetta er stórkostleg tilfinning og stund sem við erum búin að bíða eftir og vona að myndi gerast. Fram til þessa höfum við talað um að þetta væri vonarneistinn í Vatnsmýrinni sem við vonuðum að myndi ekki slokkna. Þetta er þó í fyrsta skiptið sem við raunverulega trúum því að við séum að klára þessa byggingu," sagði Svafa.

„Við ætlum að hefja kennslu hér í janúar og opna nokkrar deildir. Við munum reyna að flytja verkfræðideild, tölvunarfræðideild og viðskiptafræðideild hingað niður eftir. Hinar deildirnar sem ekki ná að flytja um áramót verða áfram við Ofanleyti og þá hugsanlega í Morgunblaðshúsinu."