Nýja Kaupþing notast enn að hluta til við greiðslumiðlun þá sem sett var upp fyrir bankana eftir hrunið. Þá var gerður einkaréttarsamningur við bandaríska bankann JP Morgan þar sem bankarnir voru skuldbundnir til að notast við kerfi þeirra í eitt ár.

Að sögn Finns Sveinbjörnssonar, bankastjóra Nýja Kaupþings, nota þeir enn þetta kerfi fyrir höfuðmyntirnar.

Finnur sagði að þegar kæmi að minni myntum, svo sem frá Norðurlöndunum, þá mætti bankinn notast við eigin sambönd.

„Við höfum smátt og smátt verið að byggja það upp en segja má að við hrunið hafi þetta allt farið í rúst. Svo höfum við getað samið við góða banka erlendis þannig að við erum komnir með greiðslumiðlun í Danmörku, Svíþjóð og Noregi,“ sagði Finnur.