Star Airlines, sem íslenska flutningasamsteypan Avion Group keypti nýlega, hefur ráðið nýjan forstjóra til að stýra félaginu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Hinn 46 ára gamli Laurent Magnin, sem áður starfaði sem forstjóri franska flugfélagsins Corsair, hefur samþykkt að taka við starfinu.

Avion Group greindi frá kaupunum þann 9. febrúar, en Star Airlines er annað stærsta leiguflugfélag Frakklands.

Heildartekjur Star Airlines voru 13 milljarðar króna árið 2005 og rekstrarhagnaður án afskrifta 142 milljónir króna. Ráðgert er að hagræða töluvert í rekstri og því væntir Avion Group betri afkomu á næsta ári.

Kaupverðið er trúnaðarmál en kaupin eru fjármögnuð bæði með eigin fé og lánsfé.