Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, mun skipa næsta bankastjóra Seðlabanka Íslands á fimmtudag eða föstudag í þessari viku, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Viðkomandi mun verma stól bankastjóra fram í ágúst árið 2019, en bankastjóri Seðlabankans er skipaður til fimm ára í senn.

Samkvæmt sérstakri nefnd sem mat hæfi umsækjenda um stöðuna eru þeir Friðrik Már Baldursson, Ragnar Árnason og Már Guðmundsson, núverandi bankastjóri, metnir hæfastir til starfans. Umsögn nefndarinnar var afhent fjármálaráðherra þann 17. júlí síðastliðinn.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið auglýsti stöðuna lausa til umsóknar þann 2. júní síðastliðinn. Seðlabankastjóri stýrir Seðlabanka Íslands og ber ábyrgð á rekstri hans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru falin öðrum samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands. Umsóknarfrestur rann út þann 27. júní.