Nýtt sprotafyrirtæki Adam Neumann, hins skrautlega stofnanda og fyrrverandi forstjóra WeWork, hefur sótt nærri 49 milljarða króna frá þekktum vísisjóði. Innan við þrjú ár eru síðan honum var sagt upp störfum hjá skrifstofuleigunni WeWork eftir að hvert hneykslismálið rak annað . Nýja fyrirtækið, sem heitir Flow, er leigufélag og hefur þegar fest kaup á um fjögur þúsund íbúðum í Bandaríkjunum. BBCgreinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma er Neumann sagður vera skrautlegur persónuleiki og var honum að miklu leyti kennt um rekstrarerfiðleika WeWork. Skrautlegri sögu Neumann og WeWork hefur meðal annars verið gerð skil í sjónvarpsþáttunum WeCrashed sem stórstjörnurnar Anne Hathaway og Jared Leto leika aðalhlutverkið í.

Sjá einnig: Fær milljarða þrátt fyrir brottrekstur

En þrátt fyrir að Neumann hafi skilið sviðna jörð eftir sig hjá WeWork ákvað vísisjóðurinn Andreessen Horowitz að fjárfesta í Flow fyrir 350 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 49 milljörðum króna. Er þetta mesta fjármagn sem sjóðurinn hefur lagt inn í sprotafélag í eigu eins einstaklings. Í kjölfar fjármögnunarinnar er Flow metið á rúmlega 1 milljarð dala.

Í tilkynningu þar sem greint var frá fjármögnuninni hrósaði vísisjóðurinn „framsýna leiðtoganum“ Neumann. Hann hafi leikið lykilhlutverk í að betrumbæta bandaríska skrifstofumarkaðinn og sjóðurinn veðji á að hann muni gera slíkt hið sama fyrir bandarískan leigumarkað.

Flow stefnir á að hefja starfsemi á næsta ári.