Greiningardeild Landsbankans hefur unnið nýtt verðmat á Straumi-Burðarás. Niðurstaða verðmatsins er að þeir telja virði Straums-Burðaráss vera 121,6 milljarða króna sem skiptist þannig að endurmetið eigið fé er 102,8 milljarðar króna og fjárfestingabankastarfsemin er metin á 18,8 milljarða króna. Miðað við að útistandandi hlutir séu 10.304 milljónir þá fæst verðmatsgengið 11,8.

Lokagengi Straums-Burðaráss var 15,7 í dag og því mælir greiningardeild Landsbankans með að fjárfestar selji bréf sín í félaginu og undirvogi þau í vel dreifðu eignasafni.

Lægra mat á viðskiptavild

Mat þeirra á viðskiptavild Straums-Burðaráss er bundið við endurskoðaðar forsendur í fjárfestingabankastarfseminni. Breyttar rekstrarforsendur í fjárfestingabankastarfseminni hækka verðmatið um 5,7 milljarða kr. og því er mat þeirra á viðskiptavildinni mun lægra en mat stjórnenda bankans (15 milljarðar kr.). Væri viðskiptavildin tekin að fullu inn í verðmatið þá fengist verðmatið 130,9 milljarðar kr. sem gæfi verðmatsgengið 12,7. Í verðmatinu er ekki gert ráð fyrir duldum eignum í óskráðum eignum bankans.

Lítil reynsla er komin á fjárfestingabankastarfsemina. Í greiningunni stillir Landsbankinn upp tveimur sviðsmyndum af mögulegri þróun starfseminnar. Báðar sviðsmyndirnar gera ráð fyrir betri afkomu en grunnforsendur verðmatsins segja til um, enda er tilgangur sviðsmyndanna að átta sig á hvað þurfi til til að reksturinn standi undir núverandi markaðsgengi bankans.