*

þriðjudagur, 22. september 2020
Erlent 15. júlí 2020 13:10

Hagnaður óbreyttur milli ára

Hagnaður fjárfestingabankans Goldam Sachs nam 2,42 milljörðum dollara á öðrum ársfjórðungi og er því óbreyttur milli ára.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Goldman Sachs í New York.

Fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefur birt uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung 2020. Hagnaður félagsins á fjórðungnum nam 2,42 milljörðum dollara, um 341 milljarði króna, sem er sami hagnaður og á sama tímabili í fyrra. Hagnaður félagsins nam því 6,26 dollurum á hlut en markaðsaðilar höfðu gert ráð fyrir um 3,78 dollara hagnaði á hlut.

Tekjur félagsins námu 13,3 milljörðum dollara, um 1.875 milljörðum króna. Það er um 40% aukning frá sama tímabili í fyrra og hafa tekjur bankans bara einu sinni verið meiri á einum fjórðung. Um 75% af tekjum félagsins koma af fjárfestingastarfsemi bankans, frá þessu er greint á vef CNBC.

Tekjur félagsins vegna starfsemi á skuldabréfamarkaði (e. fixed income) námu um 4,24 milljörðum dollara á fjórðungnum og hafa þær ekki verið meiri í níu ár. Tekjur vegna starfsemi á hlutabréfamarkaði námu um 2,94 milljörðum sem er ellefu ára met.

Kauphöll New York hefur ekki opnað í dag en bréf félagsins hafa hækkað um rúm 5,6% á fyrirmarkaði og standa nú í rúmlega 226 dollurum. Lægst fóru þau í 135 á þessu ári og hafa því hækkað um 51% síðan þá.

Stikkorð: Goldman Sachs uppgjör COVID-19