Eigendur Ölgerðarinnar keyptu í sumar 20% hlut Arion banka í fyrirtækinu, hlut sem bankinn eignaðist eftir fjárhagslega endurskipulagningu Ölgerðarinnar í árslok 2010. Þá flutti Ölgerðin í haust öll bankaviðskipti sín til Íslandsbanka og hættu um leið öllum viðskiptum við Arion banka.

Ölgerðin hafði áður farið í útboð á bankaviðskiptum sínum og var niðurstaða stjórnenda sú að Íslandsbanki byði fyrirtækinu bestu kjörin.

Rétt er að rifja upp að Ölgerðin og Arion banki eiga sér þó nokkra sögu. Í árslok 2010 eignaðist Arion banki 20% hlut í félaginu eftir fjárhagslega endurskipulagningu þess. Stjórnendur Ölgerðarinnar, þ.á.m. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri, og Auður1, fagfjárfestasjóður í eigu Auðar Capital, hafa nú keypt hlut Arion banka og eiga nú alla hluti félagsins.

„Það má kannski segja að með þessu útboði hafi fjárhagslegri endurskipulagningu endanlega verið lokið," segir Andri Þór, aðspurður um aðdragandann að því að færa viðskipti Ölgerðarinnar annað.

„Það er ekkert launungarmál að við vorum ósáttir við framkomu Arion meðan á fjárhagslegri endurskipulagningu stóð enda gengu þeir hart fram. Við erum hér með gott rekstrarfélag í höndunum sem hefur og getur staðið við allar sínar skuldbindingar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.