Samstæða Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar skilaði um 253 milljóna króna hagnaði á rekstrarárinu 2012-2013, en reikningsár fyrirtækisins hefst í mars á hverju ári og lýkur í febrúar. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 287 milljónum. Rekstrartekjur að frádregnum áfengis-, vöru- og skilagjöldum jukust um milljarð milli ára og námu 13,9 milljörðum króna.

Rekstrarhagnaður jókst um 52 milljónir og nam 1.053 milljónum á síðasta ári, en nettó fjármagnsgjöld jukust um tæpar 95 milljónir króna á milli ára. Eignir Ölgerðarinnar námu í febrúarlok 12,6 milljörðum króna, eigið fé nam 1,8 milljörðum og skuldir námu 10,9 milljörðum. Þar af eru vaxtaberandi langtímaskuldir 6,8 milljarðar króna. Andri Þór Guðmundsson er forstjóri Ölgerðarinnar.