Sádi Arabía hefur ákveðið að auka olíuframleiðslu sína um 12,3 milljónir fata á dag í apríl, sem er meira en 2,5 milljón olíufötum meira en áður var talið og Viðskiptablaðið sagði frá , þegar ljóst var að samningar OPEC og Rússlands um áframhaldandi framleiðslutakmarkanir hefðu siglt í strand.

Jafnframt er þetta meiri framleiðsla en landið er talið geta staðið undir sem bendir til þess að ætlunin sé að selja úr olíubirgðum landsins til a tryggja markaðshlutdeild sína í komandi verðstríði.

Greinandinn Olivier Jakob hjá Petromatrix segir stjórnvöld í Sádi Arabíu ætla að hræða markaðinn með því að sýna að þau hafi getuna til að auka framleiðsluna hraðar heldur en nokkur annar framleiðandi.

„Sádi Arabía ætlar að fara á fullt í að endurmóta markaðinn,“ hefur FT eftir Jakob. „Yfir helgina gáfu þeir í skyn verðstríð, en núna hafa þeir farið beint í stríð í magni líka. Markaðurinn hefur enga þörf á svona mikilli hráolíu. Þeir eru að losa olíu úr birgðum.“

Framleiðsluaukningin nú kemur á sama tíma og eftirspurn eftir olíu hefur dregist mikið saman vegna minnkandi ferðalaga í kjölfar útbreiðslu kórónavírusins Covid-19 sem talinn er eiga uppruna sinn í borginni Wuhan í Kína.

Þrátt fyrir þetta virðist sem olíuverð hafi náð jafnvægi á heimsmörkuðum eftir lækkanir gærdagsins, en Brent hráolíufatið hefur hækkað um 8,61%, í 37,32 dali, og Vestur Texas hráolíufatið hefur hækkað um 9,12%, í 33,97 dali.

Taldir reyna að knýja Rússa að samningaborðinu

Ástæða verðstríðsins nú er að Rússar höfnuðu tillögum Sádi Araba og annarra OPEC ríkja um enn frekari og viðvarandi framleiðslutakmarkanir en áður hafði verið samið um, þegar sá samningur félli úr gildi nú í lok marsmánaðar.

Orkumálaráðherra Rússlands, Alexander Novak hefur á móti sagt að landið gæti aukið framleiðslu sína um 500 þúsund olíuföt á dag í „nálægri framtíð“. En landið býr ekki að jafnmikilli aukaframleiðslugetu og Sádi Arabía, sem hefur áratugum saman ekki nýtt allar olíulindir sínar.

Rússar hafa sagt að framleiðslutakmarkanirnar séu einungis til þess fallnar að styrkja olíuframleiðendur í Bandaríkjunum sem nota bergbrotstækni, en hún hefur tekið sífellt stærri hluta markaðarins síðasta áratuginn.

Með þessu telja stjórnvöld í Moskvu sig geta komið krók á móti bragði gagnvart bandarísku efnahagslífi, en stjórnvöld þar hafa beitt landið efnahagslegum refsiaðgerðum síðan rússneskar hersveitir tóku yfir og innlimuðu Krímskaga Úkraínu og studdu uppreisnarmenn í Donbass héruðunum.

Abdulazis bin Salman, olíumálaráðherra Sádi Arabíu hefur látið hafa eftir sér að samningar um framleiðslutakmarkanir séu háðir þátttöku stórra ríkja, þar á meðal Rússlands, sem Sádi Arabar telji að séu ekki að standa við samkomulagið um minni framleiðslu.

Sumir greinendur telja að með aðgerðum sínum séu Sádi Arabar að reyna að koma viðsemjendum sínum aftur að samningaborðinu, jafnvel þó það þýði að bandarískir olíuframleiðendur geti hafið framleiðslu á ný með hækkandi verði.