Olíuverð hefur hækkað í dag eftir að forseti OPEC, Chakib Khelil sagði við fjölmiðla í morgun að þrátt fyrir að Saudi Arabía myndi auka framleiðslu sína myndi það ekki leiða til lækkunar olíuverðs. Khehil ítrekaði það sem hann hefur sagt áður, að hátt olíuverð hefði skapast vegna lækkunar á gengi dollarans og óróa á fjármálamörkuðum.

Verð á hráolíu hefur hækkað um 1% í dag og fór um tíma í 127,58 dali á tunnuna á mörkuðum í New York. Á föstudag kostaði tunnan 126,29 dali á mörkuðum í New York sem er met frá því að byrjað var að versla með olíu með þeim hætti sem nú er gert árið 1983.

Yfirvöld í Saudi Arabíu tilkynntu um helgina að framleiðsla ríkisins yrði aukin í tæplega 9,5 milljónir tunna í júní mánuði.

„Að framleiða 300 þúsund tunnur aukalega hefur lítil áhrif á meðan dollarinn heldur áfram að veikjast,“ sagði Khahil í morgun.