Olíuverð lækkaði um 3,59 Bandaríkjadali á tunnu í dag á Bandaríkjamarkaði, en það er mesta lækkun frá því í apríl. Þetta þykir benda til þess að eftirspurn eftir olíu sé að dragast saman í Bandaríkjunum, samkvæmt frétt Bloomberg. Væntingavísitala bandarískra neytenda hefur lækkað meira en spáð var og er nú 57,2 stig en var 62,8 stig í apríl.

Notkun olíu í Bandaríkjunum var að meðaltali 20,3 milljón tunnur á dag á fjögurra vikna tímabili sem lauk 16. maí síðastliðinn. Það er 1,3% minni neysla en var í fyrra.