Styrmir Þór Bragason forstjóri Arctic Adventures segir að félagið hafi tekið þá erfiðu ákvörðun að segja upp öllum starfsmönnum frá og með 1. maí næstkomandi, að því er Mannlíf greinir frá.

Í heildina hafa 152 starfsmenn starfað hjá félaginu og dótturfélögum þess, Straumhvarfs, Adventure hotels og ITG, en Styrmir segir ástæðuna þó óvissu sem skapast hefur í ferðaþjónustu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hyggjast stjórnvöld taka þátt í kostnaði við uppsagnir starfsfólks í fyrirtækjum með yfir 75% tekjusamdrátt og hafa síðan borist fréttir um miklar uppsagnir í ferðaþjónustu, rútufyrirtækjum og hjá Icelandair .

Styrmir Þór segist þó hafa þá einlægu von að aðstæður breytist til betri vegar á næstu mánuðum og hægt verði að endurráða sem flesta aftur þegar úr rætist.

Hér má sjá bréf Styrmis Þórs í heild:

„Kæra samstarfsfólk

Ferðaþjónusta um heim allan er að verða fyrir gríðarlega neikvæðum áhrifum vegna heimsfaraldurs Covid19. Fyrir liggur að komur ferðamanna til Ísland verða í algjöru lágmarki næstu mánuði og alls óvíst hvenær gera má ráð fyrir að líf færist í ferðaþjónustuna á ný. Í ljósi þessarar stöðu er nauðsynlegt að ráðast í umfangsmikla endurskipulagningu bæði á rekstri og fjárhag Arctic Adventures og dótturfélaga þess. Til að lágmarka áhættu og aðlaga félagið að breyttu rekstrarumhverfi hefur sú erfiða ákvörðun verið tekin að segja upp öllum starfsmönnum Straumhvarfs, Adventure hotels og ITG og miðast uppsagnirnar við 1. maí. Tölvupóstur þess efnis verður sendur til allra starfsmanna innan skamms.

Það tekur okkur sárt að þurfa að grípa til þessara aðgerða en við teljum þær nayðsynlegar vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir. Það er þó einlæg von okkar að aðstæður breytist til betri vegar á næstu mánuðum og að hægt verði að endurráða sem flest ykkar aftur þegar rætist úr stöðunni.

F.h. Arctic Adventures

Styrmir Þór Bragason“