Stjórnendur japanska tæknifyrirtækisins Olympus földu taprekstur í að minnsta kosti tuttugu ár. Þetta viðurkennir Shuichi Takayama, stjórnarformaður fyrirtækisins.

Olympus og stjórnendur fyrirtækisins eru sagðir komnir út í horn eftir ýmis hneykslismál sem hafa komið í ljós síðustu vikurnar. Forstjórinn Michael Woodford var rekinn fyrir nokkrum vikum eftir að hann greindi frá því að stjórnendur hafi mokað taprekstri undir teppið og greitt litlu og nær óþekktu ráðagjafafyrirtæki í skattaskjólinu á Cayman-eyjum 687 milljónir dala, jafnvirði 79 milljarða íslenskra króna fyrir ráðgjöf við yfirtöku á fyrirtæki í heilbrigðistækni árið 2008. Kaupverðið nam tveimur milljörðum króna.

Bandaríska stórblaðið Washington Post hefur eftir Takayama að hann hafi ekki vitað af taprekstri fyrirtækisins og ráðabruggi stjórnenda fyrr en stjórn fyrirtækisins hafi ýtt úr vör innri rannsókn á afkomu fyrirtækisins í síðustu viku. Þegar er búið að reka fyrrverandi stjórnarformann Olympus í tengslum við málið.

Hisashi Mori, aðstoðarforstjóri Olympus, var rekinn í dag í tengslum við málið og bætir Washington Post því við að endurskoðandi fyrirtækisins muni fara sömu leið.

Grunur leikur á að fyrirtækið hafi falið slæma afkomu fyrirtækisins í gegnum árin með því að kaupa fleiri fyrirtæki of háu verði. Vonast er til að rannsókn stjórnarinnar muni leiða sannleikann í ljós.

Gengi hlutabréfa fyrirtækisins hefur hrunið um tugi prósenta eftir að hinn brottrekni forstjóri Olympus vakti máls á því að eitthvað gruggugt leyndist í bókhaldi fyrirtækisins.