Blaðamaðurinn Ómar Valdimarsson íhugar að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands árið 2016. Þetta staðfesti Ómar við Kjarnann .

„Það er betra að forsetinn sameini þjóðina frekar en kljúfi hana. Þetta er orðið ágætt af hinu sama, og það er kominn tími til að breyta til. Svolítil auðmýkt er af hinu góða og svo er þetta þægileg innivinna,“ segir Ómar í samtali við Kjarnann aðspurður um af hverju hann íhugi að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Hann ætlar ekki að tjá sig frekar um mögulegt framboð að svo stöddu.

Stofnuð hefur verið síða á Facebook þar sem skorað er á Ómar að bjóða sig fram, undir yfirskriftinni „Ómar Valdimarsson á Bessastaði 2016,“ sem 56 hafa lækað til þessa.

Ómar Andersen Valdimarsson hefur um áður starfað sem blaðamaður, almannatengill og upplýsingafulltrúi Rauða krossins víðsvegar um heiminn.