*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Innlent 23. nóvember 2019 17:24

Opni fyrir smærri á verðbréfamarkað

Stefnt er að því að auðveldara verði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að sækja sér fjármagn með innleiðingu lýsingarreglugerðar ESB.

Jóhann Óli Eiðsson
Eyþór Árnason

Stefnt er að því að auðveldara verði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að sækja sér fjármagn með innleiðingu lýsingarreglugerðar ESB í íslenskan rétt. Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja jákvætt að reglugerðin verði innleidd en ósennilegt, í það minnsta í upphafi, að miklar breytingar verði á markaðnum hvað lítil og meðalstór fyrirtæki varðar. F

rumvarpsdrög um innleiðingu á reglugerðinni voru kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda í upphafi mánaðar. Í frumvarpinu er að mestu látið nægja að vísa til reglugerðarinnar í heild sinni og sagt að hún skuli hafa lagagildi hér á landi. Samhliða mun VI. kafli núgildandi laga um verðbréfaviðskipti falla úr gildi.

Meðal þess sem felst í reglugerðinni, og þar með fyrirhuguðum lögum hér á landi, er að ákvæði hennar munu ekki gilda um útboð verðbréfa ef jafnvirði þess í íslenskum krónum er minna en 1 milljón evra. Er þar á ferð tíföld hækkun frá fyrri Evrópureglum um efnið. Hækkunin er studd þeim rökum að kostnaður við gerð lýsinga við útboð verðbréfa geti verið óhóflegur miðað við ávinning sem af þeim hlýst.

Ríkjum er síðan veitt heimild til að undanskilja útboð undir allt að 8 milljónum evra, andvirði rúms milljarðs króna á gengi dagsins, frá skyldu til að birta lýsingar. Í frumvarpinu nú er lagt til að upphæðin hér á landi verði jafnvirði 5 milljóna evra í íslenskum krónum en það er sama tala og kveðið er á um í gildandi lögum um verðbréfaviðskipti. Undanfarnar vikur hefur nokkuð verið rætt um það að bankar hafi dregið úr útlánum til fyrirtækja og að stærri fyrirtæki horfi í auknum mæli á útgáfu skuldabréfa til að sækja sér fjármagn. Hingað til hafa slíkir kostir í reynd ekki staðið smærri fyrirtækjum til boða þar sem ferlið hefur reynst flókið og kostnaðarsamt. Í frumvarpinu er að finna fyrirkomulag sem ætlað er að koma til móts við þessa stöðu. Um er að ræða svokallaða ESB-vaxtarlýsingu (e. EU growth prospectus). Umrædd lýsing skal sett fram á stöðluðu formi og á einföldu máli þannig að auðvelt verði fyrir útgefendur að semja hana.

„Það eru bara allra stærstu félög á Íslandi sem hafa séð hag sinn í að gefa út markaðsverðbréf, hvort sem er hluta- eða skuldabréf. Það er ekki mjög líklegt að lítil og meðalstór íslensk fyrirtæki nýti sér fjármögnun á markaði í miklum mæli þrátt fyrir þessar breytingar. Það kemur þó til af fleiru en reglunum sem slíkum. Það er einfaldlega íþyngjandi og kostnaðarsamt að vera skráð félag eða vera með skráða fjármálagerninga,“ segir Sigrún Hjartardóttir, verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér