Að loknum aðalfundi VISA Íslands - Greiðslumiðlunar hf. voru fyrstu íslensku virku snjallkortin afhent stjórnarmönnum og framkvæmdastjórn fyrirtækisins. VISA EU hefur vottað notkun örgjörva í VISA-kort og í því ljósi heimilað útgáfu þeirra til almennings hérlendis. Fáein snjallkort hafa þegar verið gefin út og handhafar þeir beðnir um að prófa þau á ferðum sínum erlendis. Þar sem ekki eru snjall-kortalesarar fyrir hendi er hægt að nota segulröndina.

Segulröndin verður áfram til staðar enn um sinn en í framtíðinni mun hún víkja.

Nær öllum eldri posum hérlendis hefur verið skipt út fyrir nýja, sem geta lesið bæði segulrönd og örgjörva, en gert er ráð fyrir uppfærslu hugbúnaðar í þá innan skamms.

Útilokað er að afrita upplýsingar úr örgjörvanum og draga mun úr kortafalsi og mun það væntanlega hverfa alveg þegar hætt verður að nota segulrönd í kortin.

Notkun örgjörva býður upp á mikla möguleika í nýrri þjónustu og fríðindakerfum. Örgjörvar, sem í raun virka eins og tölvur og geta bæði keyrt sjálfstæð forrit og geymt gögn, eru stöðugt að verða öflugri og í framtíðinni er þess vænst að þeir muni í raun gjörbreyta notkun greiðslukorta eins og við þekkjum hana í dag.

Skipuleg útskipti eldri VISA-korta hefst fljótlega segir í tilkynningu félagsins.