Norðmenn hófu í dag framkvæmdir á forðabúri sem geyma á allar mögulegar frætegundir heimins. Borað verður inn í fjallshlíð á Svalbarða og verða þar geymd fræ í frosti, sem hægt verður að nota ef kæmi til stórkostlegra hamfara, segir í frétt Dow Jones.

Landbúnaðarráðherra Noregs, Terje Riis-Johansen, hefur kallað forðabúrið ?Örkina hans Nóa á Svalbarða." En hugmyndin er að ef kæmi til sjúdómsfaraldurs í jurtaríkinu, kjarnorkustríðs, náttúruhamfara eða loftslagsbreytinga væri hægt að hefja ræktun að nýju með frystu fræunum.

Þar sem frost er allt árið um kring á Svalbarða er forðabúrið óháð ytri aðstæðum svo sem orkubilana, fjárskorts og annars konar mannlegra mistaka, því geta fræin geymst í hundraða eða jafnvel þúsunda ára, segja talsmenn framkvæmdanna.

Noregur mun eiga forðabúrið en hugmyndin er að þjóðir heimsins geti lagt inn í forðabúrið, rétt eins og um bankahólf væri að ræða.