*

föstudagur, 24. janúar 2020
Innlent 18. júní 2019 18:09

Orkupakkamálið frestast til ágúst

Núverandi löggjafaþingi verður ekki slitið heldur fer það í hlé fram í ágúst þegar orkupakkinn fær þrjá umræðudaga.

Ritstjórn
Úr sal Alþingis við þingsetningu, en þar sem þingið fer einungis í hlé nú mun ekki nýtt löggjafaþing verða sett fyrr en að aflokinni 2. umræðu um þriðja orkupakka ESB í ágúst.
Haraldur Guðjónsson

Samkomulag virðist í höfn á þingi um þinglok, en samkvæmt heimildamönnum Viðskiptablaðsins felur það í sér að samkomulag stjórnarflokkanna við aðra stjórnarandstöðuflokka en Miðflokkinn heldur, en lokum annarrar umræðu um þriðja orkupakkann frestast til ágúst.

Hins vegar munu Miðflokksmenn ekki fá því framgengt að skipuð verði sérstök sérfræðinefnd um skoðun á upptöku ESB reglnanna um orkumál líkt og þeir hafa farið fram á.

Þar með munu verða á næstu dögum kláruð umræða um stóru stjórnarfrumvörpin um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, fiskeldið, makrílinn og heimild til innflutnings á hráu kjöti, ásamt einstaka þingmannamálum.

Hins vegar verður núverandi löggjafaþingi ekki slitið eftir það, heldur mun það fara í pásu, og hefja aftur störf í ágúst til að klára umræðuna um þriðja orkupakkann svonefnda, það er upptöku ESB reglna um frjáls viðskipti með raforku milli landa.

Segja heimildarmenn blaðsins þetta gert á þennan hátt, svo ekki þurfi að hefja umræðu um málið upp á nýtt á nýju þingi eins og reglur kveða á um, en enginn er sagður ánægður með niðurstöðuna.

Stikkorð: ESB Miðflokkurinn orkupakki þinghlé Þinglok