Á sólríkum vormorgni á bökkum vatnsins Saimaa er auðvelt að gleyma því hversu kalt getur orðið í veðri í Finnlandi. „Allt þarf að þola fjörutíu gráðu frost,“ segir Teemu Lindberg, sem er að ljúka síðustu prófunum í nýrri vinnslustöð fyrir lífdísil við Lappeenranta, aðeins um 30 kílómetrum frá landamærum Rússlands. Hann þarf að ganga úr skugga um að hver einasta skrúfa standist prófin, því vinnslustöðin verður sú fyrsta sinnar tegundar þegar hún verður gangsett í sumar. Pappírsframleiðandinn UPM er að reisa vinnslustöðina fyrir um 23 milljarða króna, en þar verður trjákvoðu breytt í eldsneyti. Kvoðan er afgangsafurð af því þegar trjáflísar eru soðnar niður í pappírsmassa.

Finnarnir passa sig á að gefa ekki upp of mikið um það hvernig trjákvoðunni er breytt í lífdísil, en tæknin gæti skipt sköpum í ríki þar sem 68% landsvæðisins eru skógi þakin. „Hér gerast galdrarnir,“ segir Lindberg, sem er framkvæmdastjóri

UPM Biofuels, þegar hann horfir yfir vinnslustöðina. UPM er eitt nokkurra fyrirtækja sem hafa þróað leiðir til að vinna lífdísil úr lífrænum úrgangi eftir að Evrópusambandið setti ströng viðmið um notkun hreinni orkugjafa í bíla árið 2009. Stefnu ESB í umhverfismálum var ætlað að ýta undir notkun endurnýtanlegrar orku og draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Litið var á hana sem tilraun til að setja á alþjóðlega staðla í þessum efnum sem Bandaríkin myndu á endanum þurfa að fylgja. Til viðbótar við að bæta umhverfið var stefnunni einnig ætlað að styrkja samkeppnisstöðu Evrópu á sviði hreinnar orku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .