Herbert Sveinbjörnsson, formaður stjórnar Borgarahreyfingarinnar, kveðst í samtali við  Viðskiptablaðið vera ósáttur við þá ákvörðun þriggja þingmanna Borgarahreyfingarinnar að styðja ekki tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Þremenningarnir ætla að styðja breytingartillögu Sjálfstæðisflokksins um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Þráinn Bertelsson ætlar hins vegar að styðja ESB-tillögu ríkisstjórnarinnar.

Herbert fundaði með þinghópnum fyrr í dag. Hann sagðist þar hafa verið að heyra rök þremenninganna fyrir afstöðu sinni. Þegar hann er spurður hvort hann sé ósáttur við ákvörðun þeirra svarar hann: „Já, ég verð að segja það. Ég hefði viljað sjá þau standa við það sem þau lofuðu fyrir kosningar."

Ríkisstjórnin var örlát

Hann segir að hreyfingin hafi upphaflega sett þrjú skilyrði fyrir því að samþykkja tillögu um aðildarviðræður að ESB. Þau skilyrði hefði ríkisstjórnin samþykkt „og rúmlega það," bætir hann við. „Ríkisstjórnin var örlát við okkur."

Hann segir að þremenningarnir hafi á fundinum fyrr í dag útskýrt hvers vegna þau hafi skipt um skoðun. Þau hafi þar vísað til Icesave og talið að Íslendingar myndu engan veginn ráða við það. Þau hafi sömuleiðis sagt að Icesave og ESB-málið héngi á sömu spýtunni en ekki getað útskýrt það frekar.

Stjórn Borgarahreyfingarinnar sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem hún sagði að Borgarahreyfingin hefði gefið það skýrt út í aðdraganda kosninganna að ekki væri hægt að taka afstöðu til aðildar að ESB nema að undangengnum aðildarviðræðum. „Stjórn Borgarahreyfingarinnar vill árétta að þetta er enn skýr stefna hreyfingarinnar. Lögum samkvæmt ber þingmönnum hreyfingarinnar hins vegar að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu," segir í yfirlýsingunni.

Herbert telur að ekki verði nein eftirmál af þessu. Þegar upp sé staðið eigi þingmenn að kjósa eftir sinni eigin sannfæringu.