Erlendar atvinnuauglýsingar eru farnar að verða fyrirferðarmeiri á auglýsingasíðum íslensku dagblaðanna. Um síðustu helgi var til dæmis óvenju mikið um erlendar atvinnuauglýsingar og það sama er uppi á teningnum um þessa helgi.

Greinilegt er að erlendir atvinnurekendur sjá tækifæri í því efnahagsástandi sem ríkir hér á landi. Nú um helgina eru í mörgum atvinnuauglýsingum óskað eftir Íslendingum til starfa erlendis.

Störfin sem í boði eru, eru fjölbreytt. Til að mynda er óskað eftir tæknifræðingum, verkfræðingum, kennurum og hárgreiðslufólki.