Brynjar Níelsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, furðar sig á að forsvarsmenn Landsbankans hafi ekki haft samráð við Bankasýslu ríkisins vegna kaupa bankans á TM tryggingum af Kviku banka.

„Skil bankastjórann og stjórn bankans að vilja efla hann og styrkja í samkeppninni enda hlutverk þeirra,“ segir Brynjar í færslu á Facebook.

„En að ganga frá kaupunum, sem er stór ákvörðun, án samráðs við eigandann og sérstaklega í ljósi þess að fjármálaráðherra hafði lýst því yfir opinberlega í byrjun febrúar að hann væri andsnúin hugsanlegum kaupum, er óskiljanlegt.“

Í bréfi sem forstjóri Bankasýslu ríkisins sendi til fjármálaráðherra og bankaráðs Landsbankans í gærkvöldi kemur fram að Bankasýslunni hafi verið alls ókunnugt um kaup Landsbankans á TM af Kviku áður en tilkynnt var formlega um viðskiptin. Bankasýslan hafi ekki fengið upplýsingar um fyrirætlanir Landsbankans að leggja fram skuldbindandi tilboð í TM, né heldur þegar tilboðið var lagt fram.

Ríkið aldrei verið farsæll eigandi félaga á markaði

Brynjar segir umræðuna í kringum kaup Landsbankans á TM vera undarlega og sýni í raun hversu vitlaust það sé að ríkið eigi hlutafélög á samkeppnismarkaði.

„Alger óþarfi að tvöfalda áhættu skattgreiðenda ef illa fer. Ríkið er ekki og hefur aldrei verið farsæll eigandi félaga á markaði. Öll þessi samfélagsbankaumræða er þvílík della að hálfa væri nóg. Hafa menn ekki minni á milli herbergja?“