Samkvæmt 22. grein laga nr. 161 frá 2002 um fjármálafyrirtæki er bönkum heimilt að yfirtaka tímabundið eignarhluti í fyrirtækjum í óskyldum rekstri vegna endurskipulagningar þeirra eða til fullnustu kröfu. Stærstu viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, hafa tekið yfir fjölmargar eignir til að verja sínar kröfur en hafa allir unnið að sölu þeirra á síðustu árum.

Eitt eiga allir bankarnir sameiginlegt og það er að þeir hafa dregið verulega úr eignarhlutum sínum í óskyldum rekstri allt frá árinu 2011. Ekki er hægt að festa ná­kvæma tölu á verðmæti þessara eigna í heildina þar sem bankarnir telja ekki óskyldar eignir með svipuðum hætti auk þess sem Arion banki gefur ekki út upplýsingar um verðmæti þeirra eigna sem hann hefur í söluferli. Enginn banki vill gefa upp upplýsingar um verðmæti einstakra eigna í sölumeðferð. Einnig er ekki á föstu hvað telst nákvæmlega eign í óskyldum rekstri. Allir eiga bankarnir t.d. hlut í Reiknistofu bankanna (RB) sem sér um upplýsingatækniþjónustu fyrir fjármálafyrirtæki. Það er starfsemi sem fellur ekki beint undir starfssvið bankastofnana en býður upp á þjónustu sem er skyld starfsemi þeirra. Eign bankanna í RB er ekki talin með í þessari samantekt.

Fækkað um tugi milljóna

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hefur þeim félögum sem bankinn á hlutdeild í sem er í óskyldum rekstri fækkað úr 26 árið 2011 í fjögur á á þessu ári. Samtals er verðmæti þeirra eigna sem eru til sölu samkvæmt árshlutareikningi bankans fyrir fyrstu sex mánuði ársins 15,7 milljarðar. Samsvarandi upphæð árið 2011 nam 42,7 milljörðum króna. Árið 2011 námu eignir Landsbankans sem voru í sölumeðferð 53,5 milljörðum króna en samkvæmt árshlutareikningi bankans fyrir fyrstu sex mánuði ársins nam samsvarandi upphæð 12,7 milljörðum í lok júní á þessu ári. Líkt og áður sagði gefur Arion banki ekki upp tölur um verðmæti þeirra eigna sem hann hefur í söluferli en á árinu hefur hann selt hlut sinn í tveimur fasteignafélögum og stóran hluta sinn í drykkjarvöruframleiðandanum Refresco Gerber.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .