*

mánudagur, 6. júlí 2020
Innlent 30. apríl 2019 08:18

Össur hagnaðist um 1,7 milljarða

Hagnaður Össurar á fyrsta ársfjórðungi jókst um 37% frá sama tíma fyrir ári en félagið seldi fyrir 19 milljarða króna.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson er forstjóri Össurar
Eva Björk Ægisdóttir

Hagnaður Össurar á fyrsta ársfjórðingu nam 14 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 1,7 milljörðum íslenskra króna, sem er aukning um 37% frá sama tímabili í fyrra.

Hagnaður fyrirtækisins, sem hlutfall af sölu, jókst einnig, eða úr 7% í 9%, milli ára, en salan nam í heildina 160 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 19 milljörðum íslenskra króna. Nam vöxtur í staðbundinni mynt 19%, og innri vöxtur var 8%.

Innri vöxtur í stoðtækjum var 10% og innri vöxtur í spelkum og stuðningsvörum var 5%. Söluvöxtur var einna helst drifinn áfram af hátæknivörum félagsins. EBITDA félagsins nam 30 milljónum Bandaríkjadala, eða 3,6 milljörðum íslenskra króna, sem er 19% af sölu og jókst um 51% frá sama tímabili í fyrra.

EBITDA framlegð var 19% samanborið við 14% á sama tímabili í fyrra. EBITDA framlegð án áhrif af innleiðingu nýrra reikningsskilastaðla (IFRS16) var 16%. Aukningu í EBITDA framlegð má rekja til aukinnar sölu á hátæknivörum og hagræðingar í rekstri.

Össur greiddi út arð í mars 2019 sem nam DKK 0.14 á hlut fyrir árið 2018, sem samsvarar um 9 milljónum Bandaríkjadala eða 11% af hagnaði ársins 2018. Það samsvarar um 1,1 milljarði í slenskra króna. Össur lækkaði hlutafé félagsins um 5.430.259 kr. í lok mars 2019 og er nafnverð hlutafjár félagsins nú 425.377.804 kr.

Fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2019 er óbreytt eða 4-5% innri vöxtur, um 23% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, 4-5% fjárfestingarhlutfall og virkt skattahlutfall á bilinu 23-24%.

Nýtt stoðtæki með gervigreind leiðir söluvöxt

Jón Sigurðsson, forstjóri segir söluvöxtinn á fyrsta ársfjórðungi hafa verið góðan á öllum mörkuðum, en þar hafi stoðtækjareksturinn og Asíumarkaðurinn verið í fararbroddi.

„Við erum ánægð að sjá hátæknivörur okkar leiða söluvöxtinn og má þar sérstaklega nefna nýja stoðtækið okkar með gervigreind, PROPRIO FOOT®, sem var settur á markað í fjórðungnum og hefur fengið góðar viðtökur,“ segir Jón.

„Rekstrarhagnaður félagsins jókst með aukinni sölu á hátæknivörum, rekstrarhagræðingu og stærðarhagkvæmni. Sjóðstreymi í fjórðungnum var gott þegar haft er í huga að fyrsti fjórðungur ársins er ávallt sá lakasti með tilliti til framlegðar og sjóðstreymis.“