Ekki liggur fyrir hver verður aðalsamningamaður Íslendinga í viðræðum við Evrópusambandið, fari svo að umsóknin verður samþykkt en utanríkisráðherra mun skipa þann mann eða menn að höfðu samráði við ríkisstjórn.

„Það varðar miklu að sá, sú eða þau sem leiða samningaviðræðurnar njóti trausts," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í samtali við Viðskiptablaðið.

Nöfn á borð við Þorstein Pálsson, fyrrverandi ráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, og Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, hafa verið viðruð í þessu sambandi.

Þeir sem sjá á hinn bóginn meinbugi á slíkri skipan telja að aðalsamningamaðurinn megi ekki vera of áfjáður í að komast í ESB. Hann þurfi að vera trúverðugur í því hlutverki að gæta hagsmuna Íslendinga í hvívetna.

Samningamenn njóti trausts

Sjálfur vill Össur ekkert gefa upp um mögulega samningamenn. Þegar hann er spurður hvort áhersla verði lögð á að þverpólitísk sátt ríki um þann sem verði fyrir valinu svarar hann: „Það varðar miklu að sá, sú eða þau sem leiða samningaviðræðurnar njóti trausts."

Hann segir jafnramt að ekki sé búið að slá neinu föstu um lykilstöður. „Um það mun ég reyna að hafa gott samráð. Það væri mjög úr takti við það sem ég hef sagt ef þarna væri stillt upp einhverjum sem ekki nyti trausts sem einstaklingur hjá meiriháttar pólitískum hreyfingum og hagsmunasamtökum."

Nánar er rætt við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í Viðskiptablaðinu.