*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 13. ágúst 2017 17:02

Össur vex í Kína

Á hverju ári ver Össur um 2,5 milljörðum króna, eða 5% af árlegri heildarsölu, í vöruþróun.

Snorri Páll Gunnarsson
Eva Björk Ægisdóttir

Á síðasta ári tók Össur yfir alla sölu á dreifingu á sínum vörum í Kína.

„Fram að þeim tíma - í um tólf ár - höfðum við einungis markaðsstarfsemina á okkar höndum," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar. „Almennt er Asía vaxtarmarkaður fyrir okkur og höfum við verið að auka umsvifin þar hægt og bítandi, einkum í Kína. Það er gríðarlega stór markaður með mikinn hagvöxt.

Frá árinu 1999 höfum við vaxið um 20% á hverju ári miðað við sölu. Hagnaðurinn hefur vaxið um 23%. Við höfum alltaf verið að færa okkur yfir í hátæknivörur, enda byggist þetta á tækniuppfærslu. Hún gerir okkur kleift að bjóða dýrari en gæðameiri vörur, þannig að það fer meiri peningur í hvern sjúkling. Við erum talin vera á mjög dýrum markaði þar sem við erum ekki að bjóða upp á ódýrar lausnir. Þetta á einnig við í þróunarlöndum. Þar erum við ekki að keppa við staðbundna aðila sem geta boðið mun ódýrari lausnir en við. Við höldum okkur bara við hátæknivörurnar. Svo eru fyrstu vörurnar okkar að verða hlutfallslega lægri í verði en hinar sem eru að koma út. Við nýtum okkur auðvitað það að keppa meira í verði á gömlu vörunum heldur en þessum nýju.

Svo má auðvitað ekki gleyma því að fjárfesting okkar í rannsóknum, vöruþróun og nýsköpun er kjarninn í þeim árangri sem náðst hefur. Það er okkar lifibrauð. Við fjárfestum um 2,5 milljörðum króna eða um 5% af heildarsölu árlega í vöruþróun."

Nánar er rætt við Jón Sigurðsson, forstjóra Össurar, í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.