Frumvarp um breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands var lagt fram á síðasta löggjafarþingi . Því var síðan vísað til efnahags- og viðskiptanefndar 19. nóvember síðastliðinn.

Minnihluti nefndarinnar gerir athugasemdir við það hversu málið barst seint til nefndarinnar. Hann telur að sá tími sem nefndin hafði til að skoða málið sé of lítill til að Alþingi geti með sómasamlegum hætti fullnægt rannsóknarskyldu sinni og tryggt fagleg vinnubrögð.

„Málið er einnig þannig fram sett og í þannig samhengi af hálfu stjórnarmeirihlutans að það setur Alþingi í verulegan vanda," segír í áliti minnihlutans. „Þetta stafar af því að gert er ráð fyrir tekjunum frá Seðlabankanum í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram og fjallað um á undan því máli sem hér hefur verið til umfjöllunar. Minni hlutinn leggur áherslu á að ótækt sé að setja Alþingi í slíka klemmu. Minni hlutinn telur engu síður að málið hafi tekið framförum frá því að það var lagt fram í vor en að mati minni hlutans gekk sú útgáfa sem lögð var fyrir þingið á vormánuðum ekki upp."

Minnihlutinn telur að enn séu uppi viss álitamál um það hvernig réttast sé að fara með færslur sem af þessum lagabreytingum leiðir, bæði í reikningum Seðlabankas og ríkisins.

„Rétt er að benda á að bókfærsla þessa eignarhlutar verður með öðrum hætti en almennt á við um eign ríkisins í öðrum félögum og fyrirtækjum. Hugsanlega stendur það til bóta í kjölfar nýrra laga um opinber fjármál.

Það er mat minnihlutans að eðlilegri vinnubrögð hefðu verið að lögfesta fyrst rammann um ný eiginfjárviðmið Seðlabanka Íslands, láta því næst bankann og bankaráðið ganga frá þeim reglum og leggja þá mat á hvort og þá hve mikil tekjufærsla ætti að eiga sér stað hjá ríkissjóði vegna lækkunar á eigin fé Seðlabankans.

Minnihlutinn telur að sá asi sem er á því að tekjufæra 21 milljarð króna af 26 milljarða króna lækkun eigin fjár þegar á þessu ári sé allt annað en traustvekjandi, enda byggist tekjufærslan á „áætlun“ um hagnað af rekstri Seðlabankans á yfirstandandi ári. Ekki hefði þurft að byggja á „áætlun“ ef tekjufærslan hefði átt sér stað á næsta ári."

Þeir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, eru skrifaðir fyrir áliti minnihlutans.