Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun er nú unnið að því innan fjármálaráðuneytisins að setja lög um gengistryggðu lánin sem Hæstiréttur dæmdi ólögmæt 16. júní sl.

Lögin myndu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, taka mið af nýlegum tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins (FME), sem fela í stuttu máli í sér að lánin yrðu endurreiknuð aftur í tímann með lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabankans.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að vilji sé til þess innan stjórnkerfisins að setja slík lög áður en málið kemur aftur inn á borð dómsstóla. Enn á eftir að skera úr um hvaða vexti fyrrnefnd lán munu bera og er helst deilt um það hvort að upprunalegir samningsvextir, sem gjarnar voru á bilinu 3-5%, skulu standa eða hvort farið verði eftir lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabankans (sem er í takt við tilmæli Seðlabankans og FME).

Um þetta er þó deilt innan ríkisstjórnarinnar sem og innbyrðist í stjórnarflokkunum. Í raun snúast deilurnar um það hvort að löggjafinn eigi að grípa inn í málið núna eða hvort dómstólar fái að eiga lokaorðið. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins „óttast“ aðilar innan stjórnkerfisins þó að Hæstiréttur kunni að dæma upphaflegu samningsvexti gilda.

Lögin sem um ræðir fela sem fyrr í sér að farið verði eftir tilmælum Seðlabanans og FME. Þannig mun vera eindreginn vilji til þess innan fjármálaráðuneytisins og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Steingrímur J. Sigfússon unnið að því síðustu daga að afla því pólitísks stuðnings eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að á sama tíma sé meiri vilji til þess innan Samfylkingarinnar að láta dómstóla útkljá málið. Til upprifjunar má geta þess að Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, fordæmdi í síðustu viku tilmæli Seðlabankans og FME. Þá mun Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, vera á þeirri skoðun að málið eigi að fara fyrir dóm.

Það sem hins vegar veldur óróa innan stjórnkerfisins er að fari svo að Hæstiréttur dæmi upphaflega samningsvextina gilda mun það að öllum líkindum kollvarpa fjármálakerfinu hér á landi. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um síðustu vikur má gera ráð fyrir því að stærstu hluti fjármálakerfisins muni ekki standa af sér slíkan dóm, þ.e. ef ekki kemur til eiginfjárframlags frá ríkinu.

Eðli málsins samkvæmt má ekki gera ráð fyrir því að málið um gengistryggðu lánin útkljáist fyrr en í haust þannig að nokkrir mánuðir gætu liðið í óvissunni á meðan.  Þess vegna er vilji til þess að vera á undan Hæstarétti og setja lög um málið en eins og staðan er núna er óvíst að það frumvarp fari lengra en til ríkisstjórnarinnar, þ.e. ef ekki er pólitískur vilji til þess verði það ekki lagt fram á Alþingi.