Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, fagnar því að endanlegur dómur liggi nú fyrir í Exeter málinu svokallaða. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Ólafur að dómurinn hafi fallið í takt við þau sjónarmið sem embættið hafi haldið fram í málinu en þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik.

Sem kunnugt er voru þeir Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, og Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, í dag dæmdir í Hæstarétti í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir þátt sinn í málinu. Héraðsdómur hafði áður sýknað þá af öllum ákærum.

„Við erum enn að meta dóminn og fara yfir hann. Það er enn of snemmt að fullyrða til um það hvort hann hafi fordæmisgildi fyrir önnur mál en við fyrstu sýn virðist svo vera,“ segir Ólafur Þór Hauksson í samtali við Viðskiptablaðið, inntur eftir viðbrögðum hans við dómnum og hvort hann telji hann fordæmisgildandi.

Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi bankastjóri MP Banka, var í sama máli sýknaður í Héraðsdóm en Hæstiréttur vísaði máli hans í dag aftur til Héraðsdóms. Í grófum dráttum hafði hann verið sýknaður í kjölfar þess að þeir Ragnar Z. og Jón Þorsteinn voru sýknaðir. Nú þegar þeir hafa verið dæmdir sekir liggur fyrir að Héraðsdómur þarf að taka mál Styrmis aftur fyrir.

Héraðsdómur sýknaði þremenningana síðasta sumar, en einn af dómurunum þremur vildi þó sakfella þá Ragnar og Jón, en var sammála meirihlutanum um að sýkna bæri Styrmi.

Ákæran á hendur Ragnari, Jóni Þorsteini og Styrmi Þór tengist lánveitingum upp á um 1,1 milljarð króna, sem Byr veitti félaginu Exeter frá október til desember 2008. Féð var notað til þess að kaupa stofnfjárbréf af MP banka af félagi í eigu Ragnars og síðan af Jóni Þorsteini. Þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik, fyrir að hafa keypt stofnfjárbréfin á yfirverði og með því valdið Byr tjóni sem að öllu jöfnu hefði lent á ákærðu, Ragnari og Jóni Þorsteini, og síðan á MP banka. Styrmir Þór var einnig ákærður í málinu fyrir peningaþvætti, fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri MP banka látið bankann taka við fé sem hann átti að vita að hefði skilað sér til bankans með umboðssvikum.