Ekki er víst hvort Reitir, TM, N1 og Advania verði skráð á hlutabréfamarkað á næsta ári. Þá er ólíklegt að VÍS, Sjóvá, Skeljungur, Promens og Marorka verði klár til skráningar á allra næstu misserum.

Þetta er mat Greiningar Íslandsbanka sem viðrað er í Morgunkorni deildarinnar í dag í tengslum við endurkomu Eimskips á hlutabréfamarkað. Þar er rifjað upp að Eimskip verði þriðja félagið sem skráð verður í Kauphöllina eftir hrun. Bréf Haga-samstæðunnar voru skráð á markað í desember í fyrra og bréf fasteignafélagsins Regins í júlí í sumar. Þessu til viðbótar stefnir Vodafone á að klára skráningu á markað á allra næstu mánuðum. Greining Íslandsbanka býst við að nokkur fyrirtæki bætist við á hlutabréfamarkaði á næstu misserum.

Um Reiti, TM, N1 og Advania segir í Morgunkorninu:

„Hafa verður í huga að hjá flestum þessara félaga gætir töluverðrar óvissu um stöðu undirbúnings vegna skráningarferils þeirra og ljóst að ekki er á vísan að róa hvort af skráningu þeirra verður eður ei.“