Nýsköpunarfyrirtækið OZ hefur fengið 326 milljónir króna styrk frá H2020 áætlun Evrópusambandsins. Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri OZ Sports, segir styrkinn mikla viðurkenningu fyrir fyrirtækið sem sé meðal annars ætlað að skapa störf á Íslandi og efla þekkingu á gervigreind hér á landi.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir félagið og sýnir árangur af þeirri nýsköpun sem átt hefur sér stað undanfarin árin. OZ var á meðal þúsunda fyrirtækja sem sótti um þessa styrkveitingu og það var virkilega ánægjulegt að vera eitt af 1% fyrirtækjanna. Um er að ræða góða innspýtingu í fyrirtækið og þetta muni skapa um tuttugu ný störf hjá fyrirtækinu á Íslandi,” segir Guðjón.

Í tilkynningu frá OZ segir að markmið fyrirtækisins sé að gefa öllum kost á að vera með sömu framleiðslugæði við beinar útsendingar af íþróttum. „Þessu markmiði er hægt að ná með notkun á róbótum, stýrðum af gervigreind til að hjálpa stjórn útsendinga. Með slíkum aðferðum þá gæti þriggja manna útsendingarteymi unnið á við fimmtán manna teymi.“

Góð reynsla sé af núverandi tækni fyrirtækisins sem hafi undanfarið verið nýtt við framleiðslu á hundruð erlendra íþróttaviðburða meðal annars í samstarfi við alþjóðleg íþróttasambönd eins og FIFA, CONCACAF og CONMEBOL.

„Þegar okkur tekst að láta Pollamótið í Eyjum líta út eins og úrslitaleik meistaradeildarinnar, þá höfum við náð markmiðum okkar. Það verður þrotlaus vinna að komast þangað. Nýsköpun er okkar helsta leynivopn. Við munum þurfa að notast við þróaðar aðferðir á sviði tölvugrafíkvinnslu og róbóta, ásamt ýmissa aðferða sem notaðar hafa verið í heimi sjálfkeyrandi bíla. Þetta er því krefjandi en spennandi verkefni,” segir Guðjón.