Pálmi Haraldsson, eigandi Iceland Express, hefur lagt um tvo milljarða króna inn í rekstur flugfélagsins frá haustmánuðum.

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu í kjölfar frétta um tap af rekstri Iceland Express, að síðasta ár hafi verið félaginu erfitt en að framlagið hafi skotið traustari fótum undir starfsemina. Fram kom í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, í morgun, að Iceland Express hafi tapað 2,7 milljörðum króna í fyrra. Þá hafi eignarhaldsfélagið Fengur, eigandi flugfélagsins sem er í eigu Pálma Haraldssonar, afskrifað hlutafé í flugfélaginu upp á rúma tvo milljarða króna í lok síðasta árs.

Viðskiptablaðið greindi frá því í október í fyrra að Pálmi hafi lagt hálfan milljarð króna inn í Astreus áður en félagið fór í þrot. Aukið fjármagn var lagt til Iceland Express eftir það.

Þá kemur fram í tilkynningunni að alger viðsnúningur hafi orðið á rekstri flugfélagsins frá því ný stjórn tók við því í fyrrahaust. Meðal þess hafi sala á farmiðum aukist umtalsvert á fyrstu mánuðum ársins og horfur góðar fyrir sumarið. Þá hafi samstarfið við Holdys Czech Arilines skilað því að flugfélagið sé orðið með stundvísustu flugfélögum sem geri út frá Keflavíkurflugvelli.