Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2015 sem er á tekjur ársins 2014. Samkvæmt tilkynningu frá embættinu voru 271.806 framteljendur á skattagrunnskrá og er það fjölgun um 3.355 einstaklinga frá fyrra ári.

„Framtalsskil gengu vel og staðfesting framtala var yfirleitt tímanlega á ferðinni. Að þessu sinni voru það 10.990 einstaklingar sem ekki skiluðu skattframtali og sættu áætlun opinberra gjalda eða 4,04% af heildarfjölda. Eru það talsvert færri en undanfarin ár og hafa aldrei jafn fáir sætt áætlun skattstofna. Framtalsskil hafa því batnað mikið á síðustu árum,“ segir í tilkyninngunni.

Ríkisskattstjóri segir að rafræn stjórnsýla hafi jafnt og þétt verið að festa sig í sessi hin síðari ár og embættið hafi leitast við að gera samskipti milli skattaðila og ríkisskattstjóra í auknum mæli rafræn. Nýtt met hafi nú verið slegið hvað það varði þar sem aldrei fyrr hafi jafnmargir framteljendur skilað rafrænu framtali og við álagningu 2015. Framtöl til vinnslu hafi verið 260.910 og þeim hafi pappírsframtöl verið 660 eða 0,25%.