„Davíð Oddsson hefur lagt trúverðugleika íslensks efnahagslífs í rúst,” segir Richard Portes, prófessor við London Business School í samtali við Viðskiptablaðið. Portes telur þjóðnýtingu Glitnis hafa verið mikinn afleik.

Portes er ómyrkur í máli: „Sú ákvörðun að neyða Glitni í þjóðnýtingu var slæm og ónauðsynleg. Hið raunverulega neyðarástand íslenska hagkerfisins hófst með þjóðnýtingunni. Sá verknaður, og hin fráleitu ummæli Davíðs Oddssonar um að aðrir bankar kynnu að hljóta sömu örlög, ættu ekki að heyrast frá neinum seðlabankastjóra,” segir hann.

„Ég tel að aðgerðir Seðlabankans hafi verið eitt stórslys. Ég vona að forsætisráðherra og ráðgjafar hans munu ekki veita Seðlabankanum mikla athygli í þeirri viðleitni sinni að endurreisa trú á íslenskt efnahagslíf,” segir Portes.

Portes segir að Seðlabankinn hefði átt að veita Glitni lán til þrautavara, þrátt fyrir að gæði þeirra veða sem voru boðin gegn mögulegu neyðarláni hafi verið umdeild: „Allir seðlabankar heims hafa víkkað út veðhæfni bréfa til endurhverfra viðskipta mikið að undanförnu, og eru að taka veð í eignum sem ekki hafa áður komið til greina. Núverandi aðstæður eru afar óeðlilegar, skammtímafjármagnsmarkaðurinn er gjörsamlega frosinn.”

Prófessorinn segir að greinamun verði að gera á því hvort banki eigi í lausafjárvandræðum, eða hvort hann sé gjaldþrota. „Glitnir hefur engar eignir af þeirri tegund sem hafa lagt aðra banka af velli á sínum bókum,” segir Portes, og vísar þar til vafasamra skuldabréfavafninga.

„Seðlabankinn á að vera lánveitandi til þrautavara, ekki sá sem leysir banka til sín til þrautavara,” segir Portes, sem telur bankann hafa gert röð mistaka í því erfiða tímabili sem nú stendur yfir. „Mikilvægt er að koma Seðlabankanum út úr því ferli að leysa núverandi vandamál. Bankinn er hluti af vandamálinu, ekki lausninni,” segir hann.

Portes segir þó að staða Glitnis hafi vissulega verið lakari en hinna bankanna. „Glitnir var vissulega háðari fjármögnun á markaði en hinir bankarnir. Þau orð Davíðs Oddsonar um að ef bankar gætu ekki fjármagnað sig, yrðu þeir gjaldþrota var allt annað en hjálpleg, og beinlínis heimskuleg. Ef að banki lendir í vandræðum og getur ekki fjármagnað sig, er það beinlínis hlutverk Seðlabanka að bjarga því. En að segja svona hluti eftir þjóðnýtingu Glitnis er gefið í skyn að kannski muni Kaupþing eða Landsbankinn lenda í sambærilegum vandræðum. Það er óásættanlegt."

Spurður um hvort krónan sé komin yfir þann punkt að geta náð styrk aftur segir hann svo ekki vera. „Það þarf einfaldlega að byggja upp trúverðugleika á ný. Hjálplegt væri að skipta um bankastjórn Seðlabankans, en ég veit ekki hverjar hinu pólitísku eða lagalegu hindranir eru á slíku. Ég veit að forsætisráðherra hefur hæfa ráðgjafa sér við hlið í lausn efnahagsvandamála Íslands, ég vona bara að þeir hlusti ekki á Seðlabankann,” segir Portes að endingu.